28.8.09

Ég fer í fríið

Nú leggur litla fjölskyldan land undir fót og ætlar að eyða dögum næstu viku í Borgarfirði síðri. Þar ætlar hún að liggja í bleyti í heitum potti og skoða undur Borgarfjarðar. Heimsækja Hvanneyri og hafa það gott.
Það er aldrei að vita nema ritari síðunnar taki einhverjar myndir og jafnvel komi þeim inn á netið. En það verður bara allt að koma í ljós.

Við heyrumst síðar

Biddan kveður-ég fer í fríið-ég fer í fríið

24.8.09

Líðan eftir atvikum

Þvottavélin mín er biluð. Hún er búin að vera á gjörgæslu í rúma viku og er lítið sem ekkert að hjara við. Kona án þvottavélar er eins og maður án salernis, bæði þurfa að vitja til stórra verka minnst þrisvar á dag annars hleðst allt upp.

Biddan kveður-á göngu um Fellabæ með þvott í pokum

21.8.09

Fljótsdalshérað fagri friðarreitur


Egilsstaðabær toppar sig í þjónustunni daglega. Í fyrradag gerði átta manna hópur tilraun til þess að panta sér borð á Nielsen klukkan 20:00 það var ekki hægt þar sem að ekki voru teknar borðapantanir eftir klukkan 19:00. Okkur fannst einkennilegt að ekki væri hægt að panta borð fyrir kvöldverð eftir klukkan 19:00 og létum þá skoðun okkar í ljós og þökkuðum fyrir.

Þegar betur er að gáð er þetta kannski ekki svo einkennilegt því að þegar fólk fer út að borða tekur það í það minnst þrjá tíma í verkið en Nielsen lokar alltaf klukkan 23:30 og þess vegna er tæpt að fólkið sé búið að kyngja síðasta bitanum áður en vertinn er farinn að stóla upp, kveikja öll ljós og segja fólki að nú sé verið að loka það verði að fara. Sennilega er átta manna hóðpur sem er að kaupa sér að borða fyrir um það bil 40 þús ekki ánægður með að vera rekinn út. Þannig að vertinn á Nielsen er sennilega að gera gestum sínum greiða með því að bóka ekki fyrir það borð eftir klukkan 20:00 hvað þá átta manns.

Lítum sem svo á að þetta sé ekki þjónustuleysi af hálfi Nielsen.
Sami hópur hafði samband við Gistihúsið á Egilsstöðum þar sem hópurinn gat fengið pantað borð og var boðið velkomið kvöldið eftir. Þar fengum við líka þessa dýrindis þjónustu, dýrlegan mat og máttum sitja eins lengi og við vildum. Það var ekki búið að kveikja og farið að stóla upp þegar við fórum, samt var klukkan farin að nálgast ellefu.

Þjónustuleysið og dónaskapurinn á Nielsen er að gera mig geðveika. Ég fer ekki oft þarna inn en ég er alltaf að heyra af fleira og fleira heimafólki sem fer þarna inn eftir klukkan 10 á kvöldin til að fá sér bjór með vinum sem eru í heimsókn og menn eru ný sestir þegar mönnum er bent á að það sé verið að loka og menn eigi að klára úr glösunum.


Mitt ráð til fólks til að forðast pirring er að fara á gistiheimilið og fá sér bjór í ró og næði og láta vertann á Nielsen um að stóla upp á kvöldin án þess að þurfa að reka gestina úr stólunum.


Biddan kveður-södd og sæl eftir frábæra bleikju á Gistihúsinu

19.8.09

Óvænt sending

Það er svo skemmtilegt þegar maður fær óvænt pakka með Póstinum. Mér finnst reyndar mjög skemmtilegt að fá pakka með Póstinum og er alltaf jafn spennt þegar ég er búin að panta eitthvað og pakkinn birtist þó svo að ég viti upp á hár hvert innihald böggulsins er.
En þannig vildi til að í dag færði Pósturinn mér bréf inn um bréfalúguna. Bréfið var skilmerkilega merkt mér og kannaðist ég nú eitthvað við áletrunina. Þegar betur var að gáð innihélt umslagið litla bók Þú ert yndisleg vinkona og reyndist hún vera frá Dagmar og Ninna þar sem þau þakka mér veislustjórnina í brúðkaupi aldarinnar. Ég gladdist mjög í mínu litla hjarta við þessa gjöf. Það er gaman að fá óvænta pakka og hvað þá pakka sem eru stútfullir af þakklæti.

Biddan kveður -þar sem stelpur koma saman geta þær flissað sig máttlausar af engu tilefni

4.8.09

Þá eru helstu tíðindi sumarsins afstaðinn. Dammsína er orðin gift kona og Elsa og Kjartan komin og farin.

Prinsessubrúðkaupið fór vel fram síðastliðinn laugardag. Þau hjónakornin skörtuðu sínu fegursta sem og Héraðið en Dagmar fannst nú best að gifta sig á eina þurrkdeginum sem komið hafði í manna minnum þetta sumarið. En svona er að vera prinsessa. Mikið var um dýrðir í veislunni og rifjaðar upp gamlar sögur af þeim hjónakornum og myndbrot frá gamalli tíð. Eftir át og drykkju var slegið upp heljarinnar dansleik með Matta og draugabönunum en Gústi bróðir Ninna er þar trommuleikari. Þegar brúðkaupsdagurinn var liðinn var Elsu og Kjartani heimilt að fara aftur af landi brott og það nýttu þau sér strax á mánudag en þá kvöddu þau landið Ísa og vonumst við til að hitta þau á haustdögum í Horsens.

Örlítið óvæntari tíðindi eru þau að fyrsta tönnin fannst í Ágústi Braga í gærdag. Við vorum stödd hjá langömmu og langafa í blokkinni og braust út mikil gleði þegar glumdi í gómnum þegar pilturinn var að fá sér mjólk úr bolla hjá Bínu ömmu.

En nú er sennilega best að fara að hafa sig á lappir og drífast á Borgarfjörð því þar standa til fjárhúsendurbætur fyrir föður minn. Kannski ég fái mér kú í haust.


Biddan kveður að sinni-með vott að spennufalli og greinilegann söknuð í hjarta