24.3.10

Á leið til Jótlands

Jæja það er líf á meðal fjölskyldunnar.

Við hjónleysiskornin ætlum að leggja land undir fót og heimsækja Elsu og Kjartan til Horsens. Ágúst Bragi ætlar að vera í vellystingum hjá ömmu og afa á Borgarfirði á meðan. Við nýtum ferðina svo sannarlega vel því við hittum Andra og Steinunni í Köben og gistum hjá þeim eina nótt og þegar við lendum aftur á landinum ísa þá brunum við upp á Skaga og fáum að knúsast í litla kút Freyju og Ebba einn dag.
Ef að heppni ritarans verður ráðandi næstu daga mun eldgosið í Eyjafjallajökli sennilega aukast hægt og bítandi og ná hámarki á aðfaranótt laugardags, þar sem við eigum flug frá Leifstöð klukkan 7 á laugardagsmorgun og við verðum því heima að sitja. En við vonum hið besta og búumst við því versta.
Ef eitthvað markvert gerist í þessu ferðalagi mun ritarinn gera sitt besta við að bera við minnisleysi og komast þar með undan því að greina frá þeim hlutum hér :) þar sem hann er afar framtaksamur.

En það má finna myndir af Ágústi Braga á myndasíðu fjölskyldunnar. Njótið þeirra vel.

kveðja Bidda - á leið úr landi

9.2.10

Allt við það besta

Allt er við það besta hjá litlu fjölskyldunni. Yngsti meðlimurinn er samt með hor og hósta og var amma Borga hjá honum í dag svo að ekki tæki sig upp bronkítis og lungabólga allt í bland :)

Ég varð hins vegar að blogga til þess að benda mönnum á þetta
Þetta finnst mér mjög fréttnæmt og vona ég heitt og innilega að Bræðslan fái Eyrarrósina þetta árið og við fáum jafnvel að tjútta með Dorrit í sumar :)

Eftir uppfærslu tölvunnar er enn verið að vinna í myndum en aldrei að vita nema að það birtist göngumyndir af prinsinum í kvöld eða þegar líða fer að helgi.

Kveðja úr Hvamminum Fjólu - Bidda

4.1.10

Nú árið er liðið í aldanna skaut!

Heil og sæl!

Það hefur ýmislegt drifið á daga litlu fjölskyldunnar síðan hér var síðast ritað. Hæst ber þó að litli prinsinnn á heimilinu varð ársgamall þann 20. nóvember og fékk að því tilefni tvöfalda afmælisveislu. Annarsvegar með börnum og hins vegar með fullorðnum þetta var helst gert vegna plássleysis á heimilinu. Prinsinn fékk margar fallegar gjafir og var orðinn ansi kræfur í pökkunum. Síðan áttu foreldrarnir afmæli en það var nú ekki eins fréttnæmt. Jólin liðu eins og venjulega og Ágúst Bragi lét svo sannarlega til sín taka í pökkunum jafnt sínum eigin og foreldra sinna. Við hittum marga góða vini yfir jólin og þökkum við öllum góðar samverustundir.

Ágúst Bragi hefur skólagöngu sína á morgun, þriðjudag og hóf ritarinn störf í dag. Þetta verða sennilega erfiðir fyrstu dagar og snemma farið í bælið í Fjóluhvamminum. En okkur eykst vonandi kraftur þegar á líður :

Heilsist ykkur sem best þangað til næst. Það er hugsanlegt að ritarinn fari að taka sig í myndainnsetningu.

Biddan kveður - Nýju ári fylgja oft fögur fyrirheit.