20.3.09

Köttur í bóli Birnu


Það var óskemmtilegt að vakna við það í morgun að köttur var að reyna að troða sér inn um gluggann í hjónaherberginu. Við Ágúst Bragi vorum að nudda stírurnar úr augunum þegar ég varð vör við þetta brölt. Mér hefur alltaf verið illa við ketti. Afi í Árbæ átti alltaf "lítinn" kisa sem var voða góður en mér stóð samt ekki á sama þegar hann var að nudda sér upp við fæturna á mér. Vegna þessarar tilfinningar minnar gagnvart köttum kom mér það ráð fyrst í hug að grípa Ágúst Braga og stíma hraðbyr út úr herberginu sem ég og gerði og lokaði hurðinni. Næst greip ég símann og hringdi í Daða sem ég skipaði að koma heim og fjarlægja köttinn úr herberginu. Skömmu síðar er mér litið út um gluggann á herberginu við hliðina sé ég þá ekki óskepnuna spígspora þar fyrir framan. Ég hringdi í Daða og aflýsti hættuástandinu og opnaði inn í herbergi til að ganga úr skugga um að allt væri með kyrrum kjörum. Svo var.

Lausaganga katta er bönnuð alveg eins og lausaganga hunda. Ætli að eigandi þessa kattar yrði glaður ef að Sesar væri að troða sér inn um svefnherbergisgluggann hjá viðkomandi.

Biddan kveður - dog-person