
Það er nokkuð merkilegt að vera ólétt og þó svo að ég hafi strax tekið þann pól í hæðina að ætla ekki að falla fyrir því sem ég kýs að kalla ,,óléttuklisjur" þá er maður samt settur í þær.
Ég er búin að vera merkileg hress alla meðgönguna, þrátt fyrir í trekaðar sögur um gliðnun þarna og hækkun á þrýstingi þarna með bjúg þarna og svo framvegis. Ég hef getað farið allra minna ferða og segjar margar konur að ég sé mjög heppin með það. Ég er þeim sammála en vil svona bæði í gamni og alvöru segja að allir þessir verkir og vanlíðan sem fylgja meðgöngu séu bara uppspuni og kerlingabækur. En sennilega fæ ég bágt fyrir það.
En þetta með að vera stimpluð þá eru nokkrir punktar sem ég hef veitt eftirtekt.
- óléttum konum er ítrekað sagt að "passa sig" (ýmis tilefni og aðstæður yfirleitt aldrei þær sömu, bara þessi setning, passaðu þig nú!
- óléttar konur eiga helst ekki að gera neitt, sitja bara með fæturnar upp á stól og hvíla sig. Mín skoðun er sú að ef þú getur gert hlutina þá er engin ástæða fyrir að gera þá ekki eða fá einhvern annan í verkið.
- óléttar konur er ítrekað spurðar hvernig þær hafi það og þá er yfirleitt reiknað með því að þær hafi það bara frekar slæmt. Fólk er mjög hissa þegar það fær svarið Ó="bara fínt, en þú?" F="ha, ég bara ágætt, en hvernig gengur (og svona lítið bros)", Ó="uhh, bara vel!" F="ok, ekkert að plaga þig", Ó="neibb". Þetta eru ekki svörin sem fólk býst við þannig að það er spurning um að spinna upp einhverja verki svo að fólk verði ekki fyrir vonbrigðum.
- óléttar konur eru ekki mikið beðnar um að gera eitthvað, þetta getur verið kostur en á svona u.þ.b. níu mánuðum þá er þetta orðið frekar þreytt.
- óléttum konum er ekki boðið út, ekki í partý og það er ekki reiknað með því að þeim langi til að skemmta sér eins og venjulegu fólki. Kannski er þetta misskilningur hjá mér, kannski flokkast óléttar konur ekki sem venjulegt fólk.
Mínar pælingar eru þessar.
- óléttar konur geta allt sem þær ætla sér
- ólétta er ekki fötlun, einhver sagði mér að þetta væri hluti af þróun mannsins og kona væri sköpuð til þess að gera akkúrat þetta. Hvers vegna ætti það þá að vera erfitt eða einhverjum vandkvæðum bundið. Þetta er allt spurning um hugarfar.
- það að vera ólétt er ekki eins og vera ekki ólétt. Enda getur tvenns konar ástand ekki bæði verið mismunandi og eins. Auðvitað finnur maður fyrir breytingum og maður er ekki eins gríðarlega fimur og maður var fyrir níu mánuðum enda er það ekkert skrítið. 10 kílóum þyngri með þau eiginlega öll beint framan á sér og einmitt með einhverja kúlu framan á sér sem gerir það að verkum og andardráttur og eiginlega allar hreyfingar verða frekar einkennilegar. En er það ekki bara eðlilegt ástand óléttunnar, ég veit það er óeðlilegt ástand ef maður er fullfrískur en þannig er það bara ekki.
Jæja, ég er sennilega búin að drepa ykkur úr leiðindum með þessu þvaðri en það er búið að fara svolítið í taugarnar á mér umræðan um ástand kvenna á meðgöngunni. Hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Hver sagði að þú myndir ekki breytast? Hver sagði að allt yrði eins og það hefði alltaf verið? Ef að það var Geir H. Haarde eða Davíð Oddsson þá skil ég vel að konur lifi í misskilningi og sársauka á meðgöngunni en sá sem sagði að allt yrði óbreytt, hann er sennilega að fara til helvítis!
Annars er fínt að frétta, við erum að fara norður á morgun til þess að sækja litla barnið eins og þeir Bláskógabræður vilja hafa það. Arnór Snær (5) spurði mig hvort það kæmi á morgun eða hinn? Það getur verið snúið að útskýra svona hluti fyrir litlum heilum sem mikið eru að hugsa. Ég gat þó fullvissað hann um að næst þegar hann hitti mig þá myndi ég vera með litla barnið með mér. Eyþór (2) er hins vegar með þetta allt á hreinu litla barnið er með nef eins og hann og stóra bumbu, sennilega vegna þess að ég er með stóra bumbu og barnið er í maganum á mér.
Biddan kveður-ólétt eða vanfær?