22.11.08

Stækkun



Fjölskyldan hefur stækkað. Myndarlegasti drengur fæddist þann 20. nóvember á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Öllum heilsast alveg prýðilega.

13.11.08

Athugasemdir



Ég er búin að laga comment-kerfið þannig að allir ættu að geta gefið comment. Það er eiginlega skylda að gefa comment því það er dónlegt að koma einhversstaðar við og heilsa hvorki né kveðja.

Biddan-kurteis

Stimpluð!

Það er nokkuð merkilegt að vera ólétt og þó svo að ég hafi strax tekið þann pól í hæðina að ætla ekki að falla fyrir því sem ég kýs að kalla ,,óléttuklisjur" þá er maður samt settur í þær.
Ég er búin að vera merkileg hress alla meðgönguna, þrátt fyrir í trekaðar sögur um gliðnun þarna og hækkun á þrýstingi þarna með bjúg þarna og svo framvegis. Ég hef getað farið allra minna ferða og segjar margar konur að ég sé mjög heppin með það. Ég er þeim sammála en vil svona bæði í gamni og alvöru segja að allir þessir verkir og vanlíðan sem fylgja meðgöngu séu bara uppspuni og kerlingabækur. En sennilega fæ ég bágt fyrir það.
En þetta með að vera stimpluð þá eru nokkrir punktar sem ég hef veitt eftirtekt.
  • óléttum konum er ítrekað sagt að "passa sig" (ýmis tilefni og aðstæður yfirleitt aldrei þær sömu, bara þessi setning, passaðu þig nú!
  • óléttar konur eiga helst ekki að gera neitt, sitja bara með fæturnar upp á stól og hvíla sig. Mín skoðun er sú að ef þú getur gert hlutina þá er engin ástæða fyrir að gera þá ekki eða fá einhvern annan í verkið.
  • óléttar konur er ítrekað spurðar hvernig þær hafi það og þá er yfirleitt reiknað með því að þær hafi það bara frekar slæmt. Fólk er mjög hissa þegar það fær svarið Ó="bara fínt, en þú?" F="ha, ég bara ágætt, en hvernig gengur (og svona lítið bros)", Ó="uhh, bara vel!" F="ok, ekkert að plaga þig", Ó="neibb". Þetta eru ekki svörin sem fólk býst við þannig að það er spurning um að spinna upp einhverja verki svo að fólk verði ekki fyrir vonbrigðum.
  • óléttar konur eru ekki mikið beðnar um að gera eitthvað, þetta getur verið kostur en á svona u.þ.b. níu mánuðum þá er þetta orðið frekar þreytt.
  • óléttum konum er ekki boðið út, ekki í partý og það er ekki reiknað með því að þeim langi til að skemmta sér eins og venjulegu fólki. Kannski er þetta misskilningur hjá mér, kannski flokkast óléttar konur ekki sem venjulegt fólk.
Mínar pælingar eru þessar.
  • óléttar konur geta allt sem þær ætla sér
  • ólétta er ekki fötlun, einhver sagði mér að þetta væri hluti af þróun mannsins og kona væri sköpuð til þess að gera akkúrat þetta. Hvers vegna ætti það þá að vera erfitt eða einhverjum vandkvæðum bundið. Þetta er allt spurning um hugarfar.
  • það að vera ólétt er ekki eins og vera ekki ólétt. Enda getur tvenns konar ástand ekki bæði verið mismunandi og eins. Auðvitað finnur maður fyrir breytingum og maður er ekki eins gríðarlega fimur og maður var fyrir níu mánuðum enda er það ekkert skrítið. 10 kílóum þyngri með þau eiginlega öll beint framan á sér og einmitt með einhverja kúlu framan á sér sem gerir það að verkum og andardráttur og eiginlega allar hreyfingar verða frekar einkennilegar. En er það ekki bara eðlilegt ástand óléttunnar, ég veit það er óeðlilegt ástand ef maður er fullfrískur en þannig er það bara ekki.
Jæja, ég er sennilega búin að drepa ykkur úr leiðindum með þessu þvaðri en það er búið að fara svolítið í taugarnar á mér umræðan um ástand kvenna á meðgöngunni. Hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Hver sagði að þú myndir ekki breytast? Hver sagði að allt yrði eins og það hefði alltaf verið? Ef að það var Geir H. Haarde eða Davíð Oddsson þá skil ég vel að konur lifi í misskilningi og sársauka á meðgöngunni en sá sem sagði að allt yrði óbreytt, hann er sennilega að fara til helvítis!

Annars er fínt að frétta, við erum að fara norður á morgun til þess að sækja litla barnið eins og þeir Bláskógabræður vilja hafa það. Arnór Snær (5) spurði mig hvort það kæmi á morgun eða hinn? Það getur verið snúið að útskýra svona hluti fyrir litlum heilum sem mikið eru að hugsa. Ég gat þó fullvissað hann um að næst þegar hann hitti mig þá myndi ég vera með litla barnið með mér. Eyþór (2) er hins vegar með þetta allt á hreinu litla barnið er með nef eins og hann og stóra bumbu, sennilega vegna þess að ég er með stóra bumbu og barnið er í maganum á mér.

Biddan kveður-ólétt eða vanfær?

7.11.08

"Ein er upp til fjalla yli húsa fjær"


Í dag er fjórði dagur rjúpnaveiðitímabilsins og að því tilefni tók húsbóndinn á heimilinu sér frí til þess að ganga til rjúpna í skóglendi Hrafnabjarga í Jökulsárhlíð. Hugurinn var mikill í manninum sem lagði af stað í birtingu, rigningarsudda og þoku. Hann hafði náð ellefu rjúpum um síðustu helgi en er að reyna að nýta dagana sem best áður en króginn lætur á sér kræla í lok rjúpnaveiðitímabilsins og setur allt úr lagi. Þegar ég bambaðist heim úr vinnunni nú áðan ákvað ég að heyra hljóðið í skyttunni. Hann var ekki hress búinn að ganga í góða þrjá tíma og sagðist ekki hafa séð fugl. Ég sagði honum að það væri nú ekki mikið það væri svo mikil þoka. Hann vildi ekki hafa það að það væri þoka í Hlíðinni. En eins og ég þekki Hlíðarmenn þá viðurkenna þeir aldrei að það skipti veðrum þarna í Hlíðinni þarna er víst alltaf einmuna veðurblíða.
Skyttan var sem sagt á heimleið heldur súr í bragði. Hann vildi ólmur fara á Borgarfjörð á meðan enn væri bjart því hann skyldi ná einni rjúpu fyrst hann hefði tekið frí úr vinnu til að fara til veiða. Ég sagði að honum hefði verið nær að vera heima því að ég sæi sveima yfir Hvamminum fjórar mjög glaðhlakkalegar rjúpur sem væru sennilega að hugsa til hans og hlæja. Honum hefði verið nær að vera heima og skjóta þær bara út um eldhúsgluggann.
Hann var ekki ánægður með þetta komment mitt og sagðist hitta mig þegar hann kæmi heim.

Biddan-Óhræsið.

6.11.08

Breytt lögheimili

Vegna gríðarlegs þunglyndis Moggans undanfarið hef ég ákveðið að herja á blómarósahafið hér á blogspot, engum háð.



Ég fékk skemmtilegt símtal í dag, ætlaði reyndar ekki að svara fyrst og lét hringja út í gemsanum og heimasímanum. Ég hringdi í hundraðogátján og símadaman þar fullvissaði mig um að þetta væri ekki sölumaður eða einhver frá Kaupþing að ganga úr skugga um séreignalífeyrissparnaðinn minn. Þegar gemsinn hringdi aftur og það var sama númer ákvað ég því að svara. Á hinum endanum var hressileg kona sem kynnti sig sem formann félags leikskólakennara. Hún vildi tilkynna mér það að mér væri sérstaklega boðið á ráðstefnu sem félag leikskólakennara og RannUng standa fyrir þann 1. desember. Kona tilkynnti mér að félagið myndi borga fyrir mig flugfar til Reykjavíkur vegna þess að ég væri nýjasti leikskólakennarinn á Íslandi! Já ég var yfir mig hissa og skyldi ekki neitt í neinu en það greinilega borgar sig að vera síðastur í stafrófinu svona af og til. Ég er sem sagt sá leikskólakennari sem var útskrifaður síðast, mitt prófskírteini er sumsamgt ferskast. Ég útskýrði fyrir henni að ég yrði mjög sennilega frekar upptekin þennan dag annað hvort við að rembast við að koma krakkanum í heiminn eða að reyna að læra inn á þess litla dýr sem ég hef ekki hugmynd um hvernig á eftir að taka mér.

En þetta var klárlega mjög ánægjulegt og vildi konan endilega fá mynd af mér sem hægt væri að varpa upp á tjald. Ég hef samt verið að velta því fyrir mér hvar Obama lét útbúa þessar harðspjalda myndir fyrir sig ég ætti kannski að láta búa til eina af mér í full-size.

Biddan-ferskur leikskólakennari, enn blaut á bak við eyrun